Innlent

Ók á tvö hundruð með lögguna á hælunum

Árni Sæberg skrifar
Lögreglumenn enduðu á því að aka á bíl mannsins.
Lögreglumenn enduðu á því að aka á bíl mannsins. Vísir/Vilhelm

Ökumaður gistir nú fangageymslur lögreglu eftir að hann var handtekinn í kjölfar eftirför lögreglu, meðal annars um íbúðahverfi. Hann ók á allt að tvö hundruð kílómetra hraða og lögregla þurfti að bregða á það ráð að aka utan í bifreið hans.

Þetta er meðal þess sem segir í dagbók Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu fyrir gærkvöldið og nóttina. Þar segir að lögreglumenn af lögreglustöðinni í Kópavogi hafi hafið eftirför eftir að ökumaðurinn sinnti ekki stöðvunarskyldu. 

Hann hafi verið handtekinn grunaður um akstur undir áhrifum ávana- og fíkniefna og fyrir að hlíta ekki fyrirmælum lögreglu.

Unglingarnir höguðu sér með stakri prýði

Þá segir frá því að unglingaskemmtun ársins, Samfestingurinn, hafi farið fram í Laugardalshöll í gærkvöldi og gengið með afbrigðum vel. Það hafi komið saman um 4.500 ungmenni víðsvegar af landinu. 

Samfélagslögreglumenn hafi verið á svæðinu og verið til taks auk útkallslögreglu. Orð hafi verið haft á því að ungmennin hefðu verið til fyrirmyndar.

Kom auga á innbrotsþjóf í miðjum klíðum

Í dagbókinni segir frá tilkynningu um yfirstandandi innbrot í umdæmi lögreglustöðvarinnar á Vínlandsleið í Grafarholti. Tilkynnandi hafi sagst hafa auga á manni í gegnum öryggismyndavélakerfi.

Einn hafi verið handtekinn á vettvangi, með töluvert af ætluðu þýfi í fórum sínum. Hann hafi verið vistaður í fangaklefa í þágu rannsóknar málsins.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×